
OKFRUMAN
Okfruman er ljóðsaga um uppvöxt, áföll og andlega upplausn. Bókin kom út haustið 2019. Hönnun og umbrot annaðist Kjartan Hreinsson. Eintök má nálgast hér.
Soffía Auður Birgisdóttir – Skáld.is
„Ein áhugaverðasta ljóðabók ársins.“
„Okfruman var nýverið tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og kemur sú tilnefning þessum ritrýni ekki á óvart. Sjaldgæft er að sjá svo sterkt byrjandaverk sem þessa bók“
Bergsteinn Sigurðsson, Sverrir Norland og Kolbrún Bergþórsdóttir – Kiljan
„Þetta er fyrsta ljóðabók Brynju og það má segja að hún hafi byrjað af krafti.“
„Út í gegn eru ofboðslega flottar myndir hjá henni. Þetta er mjög myndræn bók […] Það er einhver hrár kraftur í þessari bók […] svo er hún líka með það sem á að vera í fyrstu bók: Það er leikur með uppsetninguna, hún lætur vaða, það eru myndir […] Ég er bara mjög ánægður með þessa ljóðabók.“
„Ég las [einn kaflann] þrisvar mér fannst það svo vel gert […] Þetta er mjög vel heppnuð ljóðabók finnst mér.“
Eiríkur Örn Norðdahl – Fjallabaksleiðin
„Okfruman […] heldur utan um kaosið sitt, nostrar við það, beislar subbuskapinn án þess að ýkja hann. Æðisleg bók, æðisleg ljóð, æðislega uppsett, æðislegar myndir og myndljóð.“
Einar Falur Ingólfsson – Morgunblaðið
★ ★ ★ ★ ☆
„Fyrirtaksbyrjun hjá ungu skáldi, býsna persónulegt, frumlegt og agað verk“
Rebekka Sif Stefánsdóttir – Lestarklefinn
★ ★ ★ ★ ☆
„Einstaklega spennandi og skapandi frumraun.“
Vera Knútsdóttir – Vefur Bókmenntaborgarinnar
„Okfruman er metnaðarfullt og flott fyrsta skáldverk. Ljóðunum er haganlega fléttað saman og þau eru vel skrifuð.“
Fjöruverðlaunin – Rökstuðningur dómnefndar
„Okfruman verður til við samruna en margfaldast svo endalaust eins og orðin sem streyma. Hún er tákn um líf en hvað verður um þetta líf? Í ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur fylgjumst við með stúlku frá fæðingu og fram á óræðan aldur. Barnið er að uppgötva lífið en upplifir líka dauða nákominna, þar á meðal barna. Það eru víða ógnir; stúlkan sér það sem aðrir sjá ekki, eins og slönguna sem hringar sig um flugvöllinn og minnir því um margt á völvu. Ljóðaheimur Brynju er mjög myndrænn, ljóðmálið margrætt og þrungið kvenlegri reynslu. Hér er vel að verki staðið í spennandi ljóðabók.“
Haukur Þorgeirsson – Són: Tímarit um óðfræði
„Ég sat í strætisvagni á leiðinni heim og las bókina hennar Brynju. Stoppistöðin mín nálgaðist og ég sá að ég myndi ekki ná að ljúka við lesturinn í ferðinni. Þá íhugaði ég að fara tvær stoppistöðvar í viðbót til að klára bókina. […] Þrátt fyrir þunglyndisleg þemu er bókin grípandi og ekki þung aflestrar. Hér er sérstæð og athyglisverð fyrsta bók – kannski skáldið hafi jafnvel verið ,sleikt af Guði‘.“
Úlfar Þormóðsson
„Á dögunum keypti ég ljóðabók eftir eina búðarkonuna í Pennanum, Brynju Hjálmsdóttur. Bókin heitir Okfruman. Eins og svo oft áður les ég ekki nema eitt til tvö ljóð á dag. Ljóðin hennar Brynju eru allrar athygli verð. Þau gleðja mig. Þess vegna braut ég meginregluna í dag og lauk bókinni. Síðan las Anna hana frá upphafi til enda og er sammála mér um gæðin og ætlar að lesa hana aftur.“
Í rigningunni er malbikið
glitrandi hreistur
Þess vegna veitir því enginn athygli
þegar gríðarstór svört slanga
skríður upp úr hafinu
og hringar sig utan um flugvöllinn í Skerjafirði
Enginn sér hana
nema barnið
Grunlausir bílar
keyra viðstöðulaust inn í eitrað ginið
um nætur
óskar slangan þess
að hún væri stúlka með fætur
í gulum stígvélum
sem horfir á flugvélarnar sofa
hnýtir fingurna fasta
í víragirðinguna
hefur sig á loft