
Þegar börn öðlast mál
í fyrsta sinn
gerist það ekki í skrefum
heldur stökkum
Ekki langhlaup
heldur stangarstökk
Á einni nóttu verður mikil framför
Barn sem mánuðum saman sagði sömu þrjú orðin
lærir allt í einu tugi orða á einni viku
Línan
(sem þokast hefur hægt upp á við
afskaplega hægt
eins og sólin
upp á myrkan skammdegishimininn)
Línan
tekur undir sig stökk
breytist úr aflíðandi hlíð í snarbratt fjall
(eins og að skyndilega komi hádegi klukkan átta um morgunn)
Og fyrr en varir segir barnið ekki bara
mamma og pabbi og kisi
heldur líka voff voff
og hundur
dúkka og bangsi og pála froggi
og hani og gagg gagg gagg
og róla og meira meira meira
og brauð og ost skyr kanína
grís og kind me mu og bíll og brúmm
bangsi bangsímon bangsímon bass
áskell einar áskell tumi mía litla múmínmamma tommi stubbur
skoppa hattur depill láki tásur buxur sokkur föt
út út upp upp bakka bakka leika róló róla hátt
labba labba sjálf nei ekki taka
barnið lyftir upp höndum og segir
taka mig
Daginn
Daginn mamma
Halló
Bless bless
Babæ
Halló mamma
Halló pabbi
Barn
sér barn úti á götu og segir
Barn
bendir og segir
Halló barn
Fullorðnu fólki
er tíðrætt um að börn séu kennarar
þau kenni manni
svo margt
Ég kenndi barninu mínu að skála
að reka stútkönnuna saman við vatnsglasið og segja
Skál!
Barnið kenndi mér
að það eru ekki bara glös sem skála
fótur getur skálað við sokk
og kerti getur skálað við kertastjaka
og banani getur skálað við þvottavél
og mörgæs getur skálað við risaeðlu
allt eru þetta möguleikar
Fyrir barninu er ekkert ómögulegt
aldrei nokkurn tímann minnst á
ákveðinn
ómöguleika
Sjáðu segir barnið snjókarl og sjáðu
sjáðu snjókarl tröll tröllkarl
sjáðu ljósin sjáðu sjáðu ljósin
dót og herbergi og eldhús og pissa og borða
stjarna namm nammi namm ber graut og banani og
app app app isína vatn drekka súpa
mjólk peli bað bað bað bað bað
takk annað
ábót datt æ æ obbosí passasig
uss uss svona svona
svona svona
lesa
lesa þessa
kyssa
lúlla
rúmið
sofa núna
Allt þetta kann hún
en hún kann ekki að telja svo hún kann ekki að telja upp í tíu
eða þúsund eða tíu þúsund eða hundrað þúsund
kann ekki að segja útrýming eða aðgerðir eða valdatafl eða limlestingar
eða saklausir borgarar
Hún skilur ekki svoleiðis
og ég gengst alveg við því
að hafa ekki kennt henni á þetta
veit svo sem ekki
hvort ég skilji neitt heldur
því það er alltaf þetta
með skilninginn
með að skilja
á milli
En hún skilur rétt
Hún sér börn og þekkir þau
Bendir og segir
Halló barn
.