
TUNGUSTÍGUR 3, 735 ESKIFJÖRÐUR
Fjörðurinn er pottur
nornaseiður undir bryggjunum
magnast upp
þegar aldrei er nótt og dagurinn valsar í hringi
veturinn í fjöllunum linast
kemur askvaðandi niður brekkurnar
Peningalyktin vellur upp í mollunni
inni í fjöllunum vaxa eðalsteinar
Utan á húsinu vaxa köngulær
Uppi er kenning:
Hingað sækja þær
því húsið
er svart
Önnur kenning:
Hér setjast þær að
því húsið er gamalt
fornt eins og grafhýsi
enn kvikt með árin á bakinu
líf undir þakinu
Freistandi
að gera sér
í hugarlund
að allar komi þær
héðan
Hér er uppspretta
Stígurinn talar tungum
glamrar í mölinni þegar hann hlær