TVÖ LJÓÐ

📷 Wiki

ORÐIÐ VARÐ HOLD

Ég skal verða flúraðri en sixtínska kapellan segir hún. Grefur tákn í húðina til að kjarna sig lætur skrifa: alsæl bleik og slitin.

Lætur nöfn barna sinna fylgja og ítrekar fyrir áhorfendum: þetta eru þeirra nöfn sem ég valdi þau eru gerð úr erfðaefni mínu það man ég vel andlit þeirra eru ekki úr grjóti þau eru úr alvöru holdi. Þau eru ekki tröllabörn þótt þau fái bólur þau eru raunveruleg mannabörn og bólurnar eru bara stíflaðir hársekkir – stíflaðir með flögum feiti og blóði – ekki pöddum mosa og sandi þetta er mjög algengt þetta er ósköp eðlilegt og þetta eru ósköp venjuleg börn. Ef ég sendi þau út í sólina breytast þau ekki í stein það er ég viss um það megið þið öll bóka og það megið þið letra á innanverða vör mína svo ég finni bragðið af orðunum hvern dag: Ef ég sendi þau út 
í sólina breytast þau 
ekki í stein
heldur bein pólfara 
sem liggja frosin í snjónum uns þau þiðna eftir mörgþúsund ár þiðna loksins og byrja að tærast að gufa upp að gjósa öllu sínu lofti inn um himininn og svo á endanum rúlla þau niður fjallshlíðina beinin – gömul og brotin – mörgþúsund ára gömul og þau myljast á leiðinni verða að mjöli sem bakað er brauð úr fyrir börnin.

Dauðinn er brauð
beinin gjöf 
ykkur til handa.


HAFNARVOGIN

Ekkert sleppur frá hafnarvoginni
á henni er allt vegið
og metið

Ekkert sleppur allt skal leggjast 
á vogina

Bifreiðar, löngur og rauðmagar
gormadýnur, hjólbörur og dráttarvélar, spíttbátar
marbendlarnir blaðskellandi 
af hlátri með þúfurnar tómar í fanginu
þeir verða líka að leggjast í vogina

Allir verða að taka sakramentið allir verða að vigtast við viljum vita 
hvað þeir eru dýrir því þyngra því dýrara
fiskurinn er dýr – samt eru vasar okkar eru tómir
alltaf syndir hann gegnum fingur okkar hann er sleipur

Þetta er eins konar lögmál
allt sem vogar sér í höfnina 
er vegið 
á hafnarvoginni

Sumt er metið að verðleikum 
en flestu er hafnað

Listamenn vigtaðir á hafnarvog Seyðisfjarðar árið 2018.

Þessi ljóð birtust fyrst í Ljóðbréfi Tunglsins #3, sem borið var út á fullu tungli í janúar 2021.

Leave a comment